Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Bloggar

Við erum svo sannarlega með

ÞEIM fækkar óðum sem telja að hægt sé að "afgreiða" Vinstri græn í pólitískri umræðu með því að segja einfaldlega: "Vinstri græn er flokkurinn sem alltaf er á móti." Um nokkurt skeið hefur þetta dugað ótrúlega vel, svo vel að stefna flokksins hefur í raun verið aukaatriði fyrir marga. Nú er þetta að breytast og fólk lætur sér ekki nægja innantómar upphrópanir á borð við þá sem hér að framan er nefnd. Fólk er einnig að gera sér grein fyrir að þeir sem hrópað hafa sem hæst um "á móti stefnu" Vinstri grænna eru smám saman að mála sig út í horn ef svo má segja. Nú hefur fólk í síauknum mæli kynnt sér stefnu flokksins og málefnastöðu og eftir þá kynningu veit það vel fyrir hvað flokkurinn stendur. Það veit og skynjar hve mikilvægt erindi vinstri græn eiga við Íslendinga einmitt nú um þessar mundir. Í framhaldi af þessum vangaveltum er ekki úr vegi að rifja upp nokkra þætti sem vinstri græn standa fyrir og eru með.

Byggðamál

Vinstri græn eru mjög eindregið með því að styrkja stöðu landsbyggðarinnar. Þetta viljum við m.a. gera með því að auka valddreifingu og leiðrétta þá fjárhagslegu mismunun sem landsbyggðarfólk býr við á svo mörgum sviðum. Við viljum styrkja fjárhag sveitarfélaganna í landinu þannig að þau fái sanngjarnan skerf af skatttekjum landsmanna en berjist ekki sýknt og heilagt fyrir fjárhagslegu lífi sínu eins og langflest þeirra gera nú. Ef fjárhagur sveitarfélaganna er styrktur skapast ráðrúm til traustrar samfélagsþjónustu sveitarfélaganna. Þá geta þau veitt þá þjónustu sem íbúarnir eiga rétt á. Þessi atriði eru ein grunnforsenda þess að landsbyggðin eigi framtíð fyrir sér.

Atvinnumál

Vinstri græn eru með því að atvinnulífið þróist í átt til aukinnar fjölbreytni og að það nýti umhverfisvæna tækni. Sérstaka áherslu ber að leggja á stuðning við fjölbreytta nýsköpun svo og vöxt og viðgang lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Mikilvægt er að hefðbundnir atvinnuvegir, einkum við sjávarsíðuna og í sveitum landsins, þróist í sátt við samfélagið og verði til styrktar byggð í landinu öllu. Nýta ber sérstöðu Íslands og íslenskar auðlindir ásamt tækni og þekkingu til að skapa landsmönnum störf við fjölbreytt og þróað atvinnulíf en varast að einblína á allsherjarlausnir og einstaka stóriðjukosti eins og gert er um þessar mundir. Vinstri græn eru því með sjálfbærri orkustefnu í stað mengandi stóriðju og stórvirkjunum sem valda óheyrilega mikilli röskun á náttúru landsins. Við erum einnig með því að breyta núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi þannig að það nýtist þjóðinni allri á sem sanngjarnastan hátt enda eru auðlindir hafsins sameign íslensku þjóðarinnar. Þá erum við vinstri græn með vistvænum fiskveiðum og vernd uppvaxtarsvæða nytjafiska.

Utanríkismál

Vinstri græn eru mjög eindregið með því að Íslendingar móti sjálfstæða utanríkisstefnu en niðurlægi sig ekki hvað eftir annað með því að fylgja í blindi hernaðarhyggju stórveldanna eins og nú. Sú utanríkisstefna sem vinstri græn eru með á um leið að vera friðarstefna sem hafnar allri vígvæðingu. Við erum einnig með því að friðlýsa landið og lögsögu þess fyrir kjarnorku-, sýkla- og efnavopnum. Beina verður meiri athygli að umhverfisöryggi en nú er gert og vernda hafið fyrir úrgangi m.a. frá kjarnorkuverum og herstöðvum.

Kvenfrelsi

Vinstri græn eru með kvenfrelsi en langt er í land með að það náist. Við minnum á að góð samfélagsleg þjónusta er ein meginforsenda kvenfrelsis og því þarf að tryggja þá þjónustu eigi árangur að nást. Við erum með því að kynjafræði eigi að vera sjálfsagður hluti af skólakerfinu enda teljum við að forsenda kynjajafnréttis sé að uppfræða komandi kynslóðir um ástandið í samfélaginu og hvetja ungt fólk til að axla ábyrgð og breyta.

Verum öll með

Í skoðanakönnunum um fylgi flokkanna að undanförnu hafa Vinstri græn fengið góða útkomu. Þótt skoðanakannanir séu ekki kosningar gefa þær allgóðar vísbendingar og þær eru vinstri grænum vissulega ánægjuefni um þessar mundir. Þessi góða útkoma er fyrst og fremst því að þakka að fólk veit í ríkari mæli hvaða málefnum Vinstri græn eru með og fólk veit einnig að þau málefni eru réttlætismál og framfaramál fyrir íslenskt samfélag. Tökum þátt og verum öll með í að skapa þetta samfélag.

Höfundur er fyrrverandi bæjarfulltrúi í Vestmannaeyjum.


Höfundur

Ragnar Óskarsson
Ragnar Óskarsson
Framhaldsskólkennari
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband